Rafrænar íbúakosningar og öryggi

Vorið 2013 voru samþykktar breytingar á sveitarstjórnarlögum, sérstaklega til að auðvelda framkvæmd rafrænna íbúakosninga. Þjóðskrá var falið að framfylgja því, þróa og reka kosningakerfi. Ári síðar var kynntur samningur Þjóðskrár og spænska fyrirtækisins Scytl um kaup á kerfi. Jafnframt var tilkynnt að stefnt væri að tilraunakosningum í tveimur sveitarfélögum á haustdögum 2014. Það gekk ekki eftir, en í samningnum er tilgreint að prufukeyrsla geti farið fram allt þar til 30. júní á þessu ári rennur upp.

Samhliða kynningunni á samningnum hélt þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttirfund fyrir sveitarfélög (varúð: PDF). Ég komst ekki á sjálfan fundinn, en fylgdist með netútsendingu og sendi inn svohljóðandi spurningu:

Það kom fram að kóði kerfis Scytl væri alfarið opinn og aðgengilegur.

Hvar er sá kóði? Það er, hvar er hægt að nálgast hann?

Nú man ég ekki nákvæmlega svarið, en það var eitthvað á það leið að verið væri að vinna í þessu öllu og fljótlega yrði þetta gert opinbert. Það er margt erfitt við framkvæmd á rafrænum kosningum, bæði tæknilega og félagslega, en ég ætla ekki að fara út í það hér. Geri það kannski seinna, en almennt get ég sagt að hrifning mín á kosningum yfir internet er ekki mikil. En ef á að fara slíka leið, þá er það eiginlega frumforsenda að hægt verði að fullvissa sig um að kerfið geri það sem það segist gera, ef traust á því og framkvæmd kosninganna á að vera eitthvert. Að öðrum kosti er tæknikerfið eins og einhverskonar svartur töfrakassi sem enginn/fáir vita hvort eða hvernig virkar.

Í júní í fyrra birtist svo grein á vef Þjóðskrár undir liðnum ‘Tíðindi af verkefninu’. Þar segir:

Rætt hefur verið um mikilvægi þess að kóði kosningakerfisins sé aðgengilegur til rýni, m.a. með það að markmiði að stuðla að gagnsæi og auka traust. Í samningi Þjóðskrár Íslands um notkun á kosningakerfi Scytl í tvennum tilraunakosningum er Þjóðskrá Íslands veittur aðgangur að frumkóða kerfisins ásamt heimild til að afhenda óháðum úttektaraðilum frumkóða til rýni. Í þeim tilraunakosningum sem framundan eru rýnir óháður íslenskur úttektaraðili frumkóðann og tekur út lykilþætti kerfisins.

Þannig er nú það. Ég hvet þig til að kynna þér efni um framkvæmd þessara ætluðu íbúakosninga og senda Þjóðskrá athugasemdir. Þar sýnist mér vera mikill vilji til að gera sem best.

Ekki síst hvet ég Þjóðskrá til að endurskoða þennan hluta framkvæmdarinnar, gera frumkóða kerfisins aðgengilegan til skoðunar.