Ársskýrslur Útlendingastofnunar

Tölfræði ársins 2009 á vef Útlendingastofnunar

Tölfræði ársins 2009 á vef Útlendingastofnunar

Í 7. grein reglugerðar um um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta segir:

Í samræmi við áherslur og markmiðssetningu um árangursstjórnun, bera forstöðumenn ábyrgð á gerð langtímaáætlunar stofnunar, ársáætlunar og ársskýrslu. Langtímaáætlunin skal endurspegla stefnumörkun og megináherslur starfseminnar. Ráðuneyti ber skylda til að taka afstöðu til langtímaáætlunar stofnana. Ársáætlunin skal rúmast innan fjárheimilda auk þess að tilgreina einstök markmið og mælikvarða á árangur í starfi stofnunar.Í ársskýrslu skal koma fram samanburður á útgjöldum og fjárheimildum, auk talnalegs samanburðar á markmiðum ársins og útkomu.

Útlendingastofnun er ríkisstofnun sem fellur undir þessa reglugerð, enda í A-hluta fjárlaga. Í seinustu fjárlögum var stofnuninni úthlutað 175 milljónum í almennan rekstur. Á heimasíðu stofnunarinnar má lesa þær ársskýrslur sem gefnar hafa verið út. Þær eru fáanlegar fyrir árin 2001-2004 og 2008-2010. Engin skýrsla er semsagt til fyrir árin 2005, 2006, 2007, 2011 og 2012.

Þann 1. júlí síðastliðinn sendi ég stofnuninni eftirfarandi bréf:

Heil og sæl.
Hvað líður útgáfu ársskýrslu Útlendingastofnunar?
Kveðjur,
Páll Hilmarsson

Degi síðar barst mér þetta svar:

Sæll Páll

Ársskýrslan okkar er enn í vinnslu en vinnan hefur því miður gengið hægt sökum mikils verkefnaálags hjá stofnuninni í ár. Ég geri ekki ráð fyrir að hún komi út fyrr en með haustinu þar sem nú eru sumarfrí í fullum gangi. Ársskýrslan verður hins vegar birt á heimasíðunni okkar um leið og hún er tilbúin.

kv.
Þorsteinn Gunnarsson Lögfræðingur / Lawyer Sviðsstjóri leyfasviðs / Head of department

Það má því búast við því að stofnunin gefi bráðlega út ársskýrslu seinasta árs þar sem sumarfríum er væntanlega að mestu lokið. Vonandi mun þá einnig gefast tími hjá stofnuninni til að ljúka (eða hefja) vinnu við ársskýrslu ársins 2011.

Í inngangi skýrslunnar fyrir árið 2004 segir Hildur Dungal, þá settur forstjóri stofnunarinnar:

Miklu skiptir að umræða í samfélaginu einkennist af þekkingu á viðfangsefninu og virðingu fyrir þeim einstaklingum sem því tengjast. Meðvitað, gagnrýnið og vel upplýst samfélag er líkegra til að þróast til jákvæðra verka og taka framförum sem eru öllum íbúum til hagsbóta.

Ég hvet fólk eindregið til að kynna sér efni skýrslunnar en þar er ýmsan fróðleik að finna ásamt áhugaverðum viðtölum við valda einstaklinga.

Þetta er vel mælt. Útlendingastofnun er umdeild stofnun, ákvarðanir hennar eru ítrekað til umræðu í samfélaginu. Stofnunin hefur afar lítið traust meðal almennings samkvæmt könnunum. Þessvegna er mikilvægt að gögn og upplýsingar um stofnunina, rekstur hennar og starfsemi liggi fyrir.

Skýrslur áranna 2008, 2009 og 2010 virðast hafa verið unnar á haustmánuðum 2011 og vormánuðum 2012. Þannig er ávarp forstjóra í skýrslu ársins 2008 dagsett 1. október 2011, í skýrslu ársins 2009 17. janúar 2012 og 2010 skýrslunni 20. febrúar 2012. Þetta er fjögurra ára dráttur á ritun og birtingu skýrslunnar fyrir árið 2008. Er þetta ásættanlegt?

Kristín Völundardóttir, núverandi forstjóri stofnunarinnar, ritar skýrslur áranna 2008-2010. Í skýrslu ársins 2008 segir í inngangi:

Engar ársskýrslur hafa verið gerðar hja´Útlendingastofnun frá árinu 2005. Undirrituð ákvað að byrja á ársskýrslu ársins 2008 og klára einnig ársskýrslu vegna 2009 og 2010. Þegar tími gefst til verður farið í að gera stuttar ársskýrslur vegna áranna 2005-2007. Ætla verður að skortur á gerð ársskýrslna vegna áranna 2005-2007 hafi stafað af manneklu og þá verður að benda á að frá árinu 2008 til 1. júní 2010 var stofnuninni stýrt af settum forstjórum sem hver og einn var settur í stuttan tíma í hvert sinn. Vegna anna hjá þeim voru ársskýrslur ekki kláraðar og því skortir á að skýrslur fyrir árið 2010 hafi t.a.m. ávarp forstjóra eða ítarlega umfjöllum um innlent og erlent samstarf. Stofnunin hefur þó ávallt unnið tölfræði fyrir hvert ár sem hægt hefur verið að nálgast rafrænt.

Útskýringar Kristínar á drætti útgáfu skýrslnanna eru ótrúverðugar. Á árinu 2008 störfuðu 28 manns hjá stofnuninni. Þeim fækkaði í 25 á árinu 2009 og 23 árið 2010. Ríkisstofnun sem hefur tæplega 30 manns í vinnu og ræður ekki við að skrifa ársskýrslur vegna tíðra forstjóraskipta, er illa skipulögð og illa rekin stofnun.

Tilvísun forstjórans til tölfræði sem aðgengileg er rafræn, vísar væntanlega til undirsíðu á vef stofnunarinnar. Þar má finna eftirtalin gögn:

Útgefin dvalarleyfi 1990-2009

Mótteknar umsóknir um dvalarleyfi 2006-2009

Frávísanir 2004-2009

Hér er fjögurra ára gömul tölfræði aðgengileg í pdf-skjölum. Það er ekki ásættanlegt.

Á vef stofnunarinnar er að vísu ein undirsíða sem virðist eiga að birta tölfræði. Hún ber titilinn „Tölfræði 2009“. Efni hennar er þetta:

bla

Að lokum er vert að benda á að þær skýrslur sem stofnunin hefur þó lagt í að skrifa og birta eru gefnar út á pdf-sniði, sem gerir alla úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga afar erfiða.

Það er eitthvað ekki í lagi hjá Útlendingastofnun.

 

Kosningaspá gogn.in fyrir alþingiskosningar 27. apríl, 2013

spa

 

Hér má sjá þá spá sem gogn.in setur fram með hliðsjón af þeim könnunum sem gerðar hafa verið á fylgi flokkanna í aðdraganda kosninga.

Svona lítur hún út:

Framboð Spá um fylgi Efri mörk Neðri mörk
Sjálfstæðisflokkur 26.9% 28.0% 25.8%
Framsóknarflokkurinn 23.1% 24.5% 21.7%
Björt framtíð 6.9% 7.9% 5.9%
Píratar 6.2% 6.7% 5.7%
Samfylking 14.3% 15.1% 13.5%
Vinstri græn 11.2% 11.8% 10.6%

Fylgi flokkanna á kjördag

Í gær birtum við nokkur gröf um þróun fylgis flokka í þessum pósti hér en á þeim tíma sem myndirnar voru plottaðar og til dagsins í dag hafa bæst við þrjár kannanir í gagnasettið. Í dag er kjördagur og því liggur nokkuð ljóst fyrir að seinustu fylgiskannanir eru komnar í hús. Því er ekkert minna en sjálfsagt að keyra aftur út greiningar á fylginu miðað við nýjustu mælipunkta. Svona lítur því fylgið út á kjördag, samkvæmt fylgiskönnunum: p-final2

 

Frá því í gær hefur ekki mikið óvænt gerst. Sjálfstæðisflokkur heldur áfram að vinna á og Framsókn dalar. Því verður það fullyrt hér að Sjálfstæðisflokkurinn verður „sigurvegari“ kosninganna í dag. Eða öllu heldur sá flokkur sem nær mestu fylgi. Spurningin er bara hvort flokkurinn nái að komast yfir 30% eða ekki. Ríkisstjórnarflokkarnir Vinstri græn og Samfylkingin halda áfram að bæta við sig fylgi, en þetta of lítið og of seint. Björt framtíð heldur áfram að rúlla niður brekkuna sína eins og þau hafa gert allt árið, og upp á síðkastið hefur hún bara orðið brattari ef eitthvað er. Hjá flokki sem vill minna vesen, er þetta töluvert vesen hjá þeim. Píratar, sem hófu árið á mælingu vel undir prósenti, hafa verið á góðri siglingu alla kosningabaráttuna og náð árangri sem væntanlega kom mörgum á óvart. Kannski ekki síst þeim sjálfum. En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið og meðbyrinn virðist hafa minnkað seinustu daga og viku og vísar nú enda línunnar niður á við. Kjördagur hlýtur því að vera dagur varnarbarráttu nýju framboðanna.

Stóra myndin í fylgisþróun

Til samanburðar á myndinni að ofan um fylgisþróun flokkana er ágætt að bera hana saman við mynd sem birtist í Fréttablaðinu í dag í góðri samantekt Kolbeins Óttarssonar Proppé á kosningabaráttunni . Þar fylgir eftirfarandi mynd umfjölluninni og sýnir mælingar Fbl./S2 á fylgi flokkanna. Fbl kannanir KOP kosningadagur

Hér má sjá glöggt sjá muninn á þessum tveimur framsetningum. Munurinn á grafi Fbl. og grafi okkar er  nokkur. Hjá Fréttablaðinu er ekki að sjá að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stefna í sitthvora áttina; Framsókn niður í fylgi og Sjálfstæðisflokkur upp. Björt framtíð og Píratar virðast jafnvel vera að bæta við sig fylgi, en ekkert slíkt í að sjá í okkar greiningu, þar sem allar mælingar sem okkur standa til boða eru notaðar. Það er því spurning hví Fréttablaðið kýs nota einungis sínar eigin fylgiskannanir en ekki aðrar sem liggja á lausu. Einfalt fréttamat getur ekki ráðið því, ekki nema að fréttamatið sé að aðrar fylgiskannanir séu ónothæfar.

Samanburður mælinga

Hér að neðan má svo sjá samanburð á fylgismælingum flokkana. Það getur verið ágætt að velta því fyrir sér hvort það sé möguleiki á einhverjum „house effects“ hjá mismunandi könnunarfyrirtækjum þegar litið er yfir þessi gröf; þ.e.a.s. hvort könnunaraðilar mæli einhverja flokka alla jafna hærri eða lægri en aðrir.

P2-final2

 Fylgi einstakra flokka

Ap-final2 Vp-final2 Sp-final2 Dp-final2Pp-final2

Bp-final2

 

Gleðilegan kjördag, allir saman!

– Helgi Eiríkur Eyjólfsson, helgi.eirikur@gmail.com@svelgur

Fylgi flokkanna

Á þessu ári hafa verið gerðar opinberar rúmlega 20 kannanir um fylgi flokkana af fjórum aðilum (Capacent-Gallup, Fréttablaðið/Stöð2, Félagsvísindastofnun og MMR) þegar þetta er ritað.  Vert er að taka það fram að hér eru ekki taldar með kannanir með sjálfvöldu úrtaki á heimasíðum  Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, Útvarpi Sögu og einhverjum facebook-könnunum hinna og þessa aðila sem á ritstjórnir sumra fjölmiðla hafa meðal annars ákveðið að fjalla um, af óskiljanlegum ástæðum.

Af einhverjum ástæðum er það lenska hjá fjölmiðlum að miða ávallt nýjustu fylgiskannanir við seinasta mælipunkt sama aðila sem framkvæmdi þá könnun sem er til umfjöllunar (MMR við seinustu MMR könnun, Félagsvísindastofnun við seinustu könnun þeirra o.sv.fr.). Þessar kannanir eru allar að mæla það sama (fylgi flokka) og því ekki að skoða þær saman?

Hver er stóra myndin?

Það er ákveðin hætta á því að fólki sem er drekkt í könnunum þegar stutt er í kosningar eigi erfitt með að sjá stóru myndina, skiljanlega. Því eru hér niðurstöður fylgiskannana ársins settar á fylgnirit (e. scatterplot) þar sem tími er á x-ásnum og fylgnihlutfall á y-ásnum. Til að átta sig betur á þróuninni á árinu á fylgi flokkana var teiknuð loess-lína til að jafna út breytingarnar á fylginu yfir tíma.

p_final

Hér er stóra myndin orðin eilítið skýrari. Ótrúlegur vöxtur á fylgi Framsóknarflokksins hættir í byrjun aprílmánaðar og niðursveifla Sjálfstæðisflokksins einnig. Strax byrjar að draga saman með þessum tveimur flokkum og þó loess línur séu ekki heppilegasta tækið til að spá fyrir um framtíðina virðist Sjálfstæðisflokkur ætla að enda í meiri fylgi en Framsóknarflokkur.

En það er fleira merkilegt að sjá þarna; svo sem fylgi Bjartrar framtíðar sem og Pírata. Björt framtíð virðist hafa glatað vopnum sínum á árinu og hefur leiðin legið stöðugt niður á við og virðist ekkert lát á því svo stuttu fyrir kosningar. Það hlýtur að vera þeim áhyggjuefni. Píratar virðast á hinn bóginn hafa fundið sín vopn í byrjun ársins en það virðist sem svo að þeim hafi fatast flugið á lokasprettinum, en fátt virðist koma í veg fyrir að þau nái fólki inn á þing á þessu stigi máls.

Samanburður mælinga

Til að athuga mögulegan mismun á mælinum milli aðila var búið til annað fylgnirit og línur dregnar á milli mælipunkta sama aðila og gröfum skipt um eftir flokkum. Eðlilega raðast línurnar þvers og kruss yfir loess línuna en athygli vekur hve stöðugt munar miklu á mælingum Capacent-Gallup og Fréttablaðsins/Stöð2 á Framsóknarflokknum. Á tímabili það mikið að Fréttablaðið mælir Framsókn með heil 40% á meðan Capacent fer aldrei yfir 30% markið. Á meðan dansa MMR mælingarnar við meðal loess línuna. Þegar lengra dregur í tíma virðist þó draga saman með mælingunu. Þetta vekur þó óneitanlega nokkra athygli.

p2_final

Fylgi einstakra flokka

 

Ap_final Vp_final Sp_final Dp_final Pp_final Bp_final

 

– Helgi Eiríkur Eyjólfsson, helgi.eirikur@gmail.com, @svelgur