Nýjar kannanir – nýtt mat – breytt aðferð

 

Síðan við birtum mat okkar á stöðu flokkanna hérna þann 2. okt hafa komið fram tvær nýjar kannanir, ein frá Fréttablaðinu og önnur frá Félagsvísindastofnun sem var birt í Morgunblaðinu. Í millitíðinni hefur einnig verið unnið að því að breyta aðferðinni við matið með því að reyna að taka tillit til mögulegs kerfisbundins van- og ofmats. Um það má lesa hérna. Ákveðið var að fara varfærna leið í leiðréttingu og miða við ákveðin neðri mörk í leiðréttingunni.

Ef við gefum okkar að staðan í van- og ofmælingu nú sé svipuð og hún var í þingkosningunum 2013 og 2016, metum við það svo að staða flokkanna sé eins og má sjá hér að neðan.

Mat á fylgi flokka 03. okt 2017
Flokkur lægri mörk efri mörk miðgildi
Sjálfstæðisfl. 22.0 27.5 24.7
Vinstri græn 24.4 29.6 27.0
Píratar 5.7 8.9 7.3
Viðreisn 1.5 3.8 2.6
Framsókn 4.0 6.9 5.5
Samfylkingin 9.3 13.0 11.1
Flokkur fólks 6.7 10.0 8.4
Björt framtíð 1.6 3.7 2.6
Stj.fl. SDG 7.7 10.8 9.2
Mat á fylgi flokka. Unnið 7. okt 2017

Mat á fylgi flokka. Unnið 7. okt 2017

Við metum það því svo að bilið á milli Sjálfstæðisflokks og VG sé ekki eins mikið og einnig metum fylgi Pírata sem minna en ætla mætti af nýbirtum könnunum. Það sem gerir okkur erfiðara fyrir er síbreytilegt landslag íslenska flokkakerfisins, þar sem tveir flokkar sem komu nýir fram í seinustu tveimur kosningum (BF árið 2013 og Viðreiðsn 2016) virðast nú mælast mjög lágt en tveir nýir flokkar (Flokkur fólksins og Miðflokkur SDG) myndu skv. nýjasta matinu okkar komast á þing. Hvort þessir nýju flokkar séu of- eða vanmældir er mjög erfitt að segja til um. Eina forsendan sem virðist vera öruggast að miða við er að könnunaraðilarnir séu að meta fylgið óbjagað. Hvort það reynist raunin kemur síðan í ljós á sunnudeginum eftir kosningarnar 28. október.

Stærsti flokkurinn

Eins og síðast getum við metið líkindin á því hver sé stærsti flokkurinn (VG eða Sjálfstæðisflokkurinn). Eins og sjá má á töflunni metur líkanið það svo að það sé enn VG, þrátt fyrir leiðréttingu á vanmati á fylgi Sjálfstæðsflokksins.

Flokkur Líkindi að sigra hinn
Vinstri græn 84.5%
Sjálfstæðisflokkur 15.5%

Þróun yfir tíma

Þróun fylgis Sjálfstæðisflokks, VG og Pírata

Þróun fylgis Sjálfstæðisflokks, VG og Pírata

Þróun aðra fylgis annara flokka

Þróun aðra fylgis annara flokka

 

– Helgi Eiríkur Eyjólfsson

helgi.eirikur@gmail.com