Hvað kostar að vera í NATÓ?

NATÓ er hernaðarbandalag 28 ríkja. Íslendingar eru stofnmeðlimir, hafa verið með frá upphafi, eða í 63 ár. Fjármál NATÓ eru ekkert sérstaklega gegnsæ. Það er erfitt að afla sér upplýsinga um heildarkostnað þessara 28 ríkja við að reka hernaðarbandalagið. Þó eru reglulega gefnar út hlutfallstölur um framlag einstakra ríkja. Þannig greiddu Íslendingar fyrir árin 2010 og 2011 0,0658% af hinum borgaralega kostnaði NATÓ. Sameiginlegum kostnaði bandalagsins er skipt í þrjá hluta: borgaralegur, hernaðarlegur og framlög til „NATO Security Investment Programme.“ Hlutföll eru yfirleitt eins (eða mjög svipuð) innan þessara þriggja hluta og því skulum við bara fást við borgaralega hlutann hér.

Semsagt: Íslendingar greiða 0,066%. Til samanburðar greiða Danir 1,262%. Það er rétt tæplega tuttugufalt hærra hlutfall. Langmest greiða Bandaríkjamenn, 21,8%. Næstir koma Bretar, Þjóðverjar og Frakkar. [1. Töflu með hlutföllum áranna 2010-2011 má finna hér.]

En hvað þýðir það að greiða 0,066% af rekstrarkostnaði stærsta hernaðarbandalags heims? Hér má sjá hvernig framlög á fjárlögum til NATÓ hafa þróast seinustu 12 ár. [2. Hér er tekinn saman liður 1.41 í kaflanum Alþjóðastofnanir á fjárlagavef fjármálaráðuneytisins. Sá liður nefnist Atlantshafsbandalagið, NATO. ]

Eins og sjá má voru framlögin nokkuð svipuð milli ára fram til ársins 2010 þegar þau fóru úr 70 milljónum í 103 milljónir. 2011 varð svo enn frekari aukning þegar framlögin fóru í 266 milljónir. Aukning um 163 milljónir eða 158%.

Nú gæti ýmislegt verið á ferðinni sem útskýrir þetta. Til dæmis gæti verið að kostnaður við rekstur NATÓ hafi einfaldlega aukist svona mikið. Kannski er bandalagið að byggja sér nýtt hús. Kannski er stríðsreksturinn í Afganistan dýrari núna en 2007. Líklegri skýring er sú að framlag Íslendinga hafi að hluta til verið greitt með annarskonar framlagi en beinum peningum. Þannig er ekki ótrúlegt að leiga fyrir land undir herstöðina á Miðnesheiði hafi verið merkt sem framlag til NATÓ. Við brottför hersins hefur svo íslenskum stjórnvöldum ekki lengur verið stætt á því að borga ekkert og því hafi hið beina framlag hækkað.

Það hefur lengið verið viðkvæði þeirra sem finnst eðlilegt að Íslendingar séu aðilar að hernaðarbandalagi eð við eigum að taka fullan þátt í alþjóðlegu samstarfi. Af einhverjum ástæðum er sjaldnar rætt um þann kostnað sem hlýst af því að reka stríðsvélar í samstarfi við aðra. Nú mætti segja, réttilega, að 250 milljónir séu ekki há fjárhæð í stóru samhengi hlutanna. En er ekki eðlilegt að rík þjóð eins og Íslendingar greiði til stríðsrekstrarins af meiri myndugleika en, tja, bara einhver önnur þjóð? Staðreyndin er sú að engin þjóð í bandalaginu greiðir lægra hlutfall. Engin. Albanía, það land sem leggur næstminnst til, greiðir 0,076%.

Segjum sem svo að við borguðum sama hlutfall og Danir. Þá væri framlag okkar um 5.100 milljónir. 5,1 milljarður á ári.

Er líklegt að mörgum Íslendingum þætti þeim peningum vel varið?