Hin íslenska fálkaorða

Hin íslenska fálkaorða var fyrst veitt árið 1921. Á vef forsetaembættisins má finna lista yfir alla orðuhafa frá upphafi en ekki í sérlega hentugu formi til að vinna með. Með því að skrapa listunum saman á einn stað má útbúa grunn til að vinna með. Þar má sækja csv skrá sem hægt er að flytja inn í Excel eða Google Docs eða annan töflureikni, kjósi menn svo.

Orðuhafar frá upphafi eru á þessari stundu 6811. Svona skiptast þeir eftir árum:

 

Þrjú ár skera sig úr; 1954, 1971 og 1981. Mér þykir þægilegt þegar ég fæ í hendurnar gagnasett á csv form að notast við hið frábæra tólasett csvkit. Eitt tólið sem þar er í boði er cvstat sem gefur manni snöggt tölfræðilegar upplýsingar um gögnin. Þegar við keyrum það á þetta gagnasett sjáum við m.a. þetta:

4. year
5 most frequent values:
1981: 256
1971: 236
1954: 200
1972: 167
1983: 157

csvstat tekur saman slíka tölfræði fyrir alla dálka í skránni. Dálkarnir í skránni okkar eru ‘citizenship, award, year, date, occupation, name, reason.’ Fyrir dálkinn ‘citizenship’ líta niðurstöðurnar svona út:

2. citizenship
Unique values: 60
5 most frequent values:
Ísland: 2760
Danmörk: 991
Noregur: 581
Svíþjóð: 492
Finnland: 417
Max length: 13

Semsagt: langflestar orður sem ekki fara til Íslendinga fara til Dana og þar á eftir koma Norðurlandaþjóðirnar. Samtals hafa fulltrúar 60 þjóða fengið fálkaorðuna.

‘Reason’ dálkurinn inniheldur ástæðu sem gefin er upp fyrir orðuveitingunni. Ekki er alltaf gefin upp ástæða en hér eru þær vinsælustu:

8. reason
Unique values: 874
5 most frequent values:
fyrir embættisstörf: 925
fyrir störf í opinbera þágu: 304
fyrir störf að uppeldismálum: 195
fyrir störf í þágu landbúnaðarins: 164
fyrir ritstörf: 146
Max length: 109

Það hefur löngum verið gagnrýnt að fálkaorður fái þeir sem mæta sæmilega í vinnuna yfir starfsævina án þess að verða sér um of til skammar. Enda sést hér að flestir fá orðu fyrir embættisstörf eða störf í opinbera þágu. Og þegar dálkurinn ‘occupation’ er skoðaður má sjá að titlarnir eru úr efri lögum samfélagsins:

6. occupation
Unique values: 2042
5 most frequent values:
prófessor: 283
forstjóri: 214
framkvæmdastjóri: 144
sendiherra: 140
ræðismaður: 111
Max length: 67

Dreifingin hér er þó töluverð, 2042 einstakir titlar. Líklega mætti fækka þessum titlum eitthvað með því að sameina handvirkt. Þannig ætti ‘stjórnarformaður Toyota’ alveg heima með framvkæmdastjórunum. Mögulega vantar þó bara flokkinn ‘kapítalisti.’

Ef við flokkum orðuveitingar niður eftir því hvaða forseti veitti þá má sjá að Vigdís Finnbogadóttir var langduglegust að hengja glingur í fólk:

Riddarakross Stórkross Stórkross með keðju Stórriddarakross Stórriddarakross með stjörnu Samtals
Fyrir 17. júní 1944 765 96 1 332 148 1342
Sveinn Björnsson 231 28 119 36 414
Ásgeir Ásgeirsson 691 121 9 288 145 1254
Kristján Eldjárn 749 101 4 369 166 1389
Vigdís Finnbogadóttir 944 175 9 317 217 1662
Ólafur Ragnar Grímsson 529 48 2 100 71 750
Samtals 3909 569 25 1525 783 6811

Fjöldi veitinga þarf svo hinsvegar ekki að segja allt enda sitja forsetar mislengi. Þannig að ef við deilum fjölda veittra orða í fjölda daga hvers forseta (og miðum dagafjölda sitjandi forseta við daginn í dag) þá fáum við þetta út:

Orður veittar Dagar í embætti Orður á dag
Sveinn Björnsson 414 2778 0.15
Ásgeir Ásgeirsson 1254 5844 0.21
Kristján Eldjárn 1389 4383 0.32
Vigdís Finnbogadóttir 1662 5844 0.28
Ólafur Ragnar Grímsson 750 5758 0.13
Langar þig að vinna frekar með þessi gögn en ert ekki alveg viss um hvernig? Eða þarftu að nálgast gögn en veist ekki hvernig? Hafðu samband!