Frumvörp um kosningar á 146. þingi og afdrif þeirra

kjordagur-0881-1_1

Við hér hjá hinu stafræna samlagi, gogn.in, erum ekki bara áhugafólk um kosningar, heldur störfum við mörg hver við kosningar. Undirritaður hefur t.d. borið ábyrgð á meðferð utankjörfundaratkvæða við allar almennar kosningar í Reykjavík síðan 2011, auk þes að koma að uppgjöri og undirbúningi allra þeirra kosninga í samstarfi við starfsfólk Reykjavíkurborgar og yfirkjörstjórnir.

Á því þingi sem nú var að ljúka komu fram nokkur þingmál sem lúta að kosningum. Förum nú yfir þau.

Byrjum á þeim frumvörpum sem urðu að lögum:

Það er stuttur listi. Ekkert frumvarp sem lýtur að kosningum varð að lögum.

Eitt frumvarp náði alla leið í þriðju umræðu og atkvæðagreiðslu:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningarréttur erlendra ríkisborgara)

Frumvarpið, sem er borið fram af þingmönnum Viðreisnar, miðar að því að stytta þann tíma sem erlendir ríkisborgarar þurfa að dvelja hér, áður en þeir fá kosningarétt (og kjörgengi) í sveitarstjórnarkosningum. Með frumvarpinu fylgdi tafla þar sem Norðurlöndin eru borin saman:

Screenshot 2017-06-01 21.58.08

Með frumvarpinu var lagt til að hér yrði staðan sú sama og í Danmörku og Svíþjóð. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði um frumvarpið, sendi 58 aðilum umsagnarbeiðnir og fékk 6. Allar umsagnir voru jákvæðar, nema umsögn lýðræðisfélagsins Öldu, sem vildi ganga enn lengra og afnema öll tímamörk á kosningarétti erlendra ríkisborgara. Eftir umfjöllun nefndarinnar varð það úr að hún lagði til að frumvarpinu yrðir vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Fyrsti flutningsmaður, Pawel Bartoszek lét þess getið í atkvæðagreiðslu um tillögu nefndarinnar (sem var samþykkt) að Dómsmálaráðuneytið mætti eiga von á að finna sinn “hlýja andardrátt á hnakka sínum” til að tryggja framgang málsins.

Þrjú frumvörp voru í nefnd þegar þingfundum var frestað.

Kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur)

Frumvarpið, sem er borið fram af fulltrúm allra flokka, er sett fram til að lækka kosningaaldur í kosningum til sveitarstjórna úr átján árum í sextán. Tuttugu umsagnir bárust allsherjar- og menntamálanefnd, nær allar jákvæðar. Íslenska Þjóðfylkingin sagði í sinni umsögn að “gjörningurinn væri arfa vitlaus”.

Sveitarstjórnarlög (íbúakosningar)

Píratar endurfluttu frumvarp sitt um breytingar á sveitarstjórnarlögum sem kveða á um að hlutfall íbúa sem þarf til að fara fram á íbúakosningu skuli vera 20% eða hærra. Frumvarpið miðar að því að afnema þann þröskuld og gefa sveitarstjórnum sjálfdæmi í því hversu hátt (eða lágt) hlutfallið þarf að vera. Frumvarpið gekk til umhverfis-og samgöngunefndar sem sendi 90 umsagnarbeiðnir en fékk einungis tvær sendar til sín. Önnur frá Fljótsdalshéraði sem tók ekki afstöðu og aðra frá ASÍ sem “gerir ekki athugasemdir við efni málsins”.

Sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn)

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti stjórnarfrumvarp um breytingar á sveitarstjórnalögum þar sem lágmarksfjöldi aðalmann í sveitarstjórn í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100 þúsund eða fleiri skal vera 23. Einungis eitt sveitarfélag uppfyllir það, Reykjavíkurborg, en þar eru nú borgarfulltrúar fimmtán. Við komandi sveitarstjórnarkosningar verður því, samkvæmt núgildandi lögum, borgarfulltrúum fjölgað í 23 að lágmarki (og 31 að hámarki).
Frumvarpið gengur út á að afturkalla þessa fjölgun borgarfulltrúa en hún hefur verið hluti af lögunum allt frá setningu þeirra árið 2011, en þó með því bráðabirgðarákvæði þess efnis að breytingin tæki ekki gildi fyrr en við aðrar kosningar frá setningu. Semsagt í fyrsta lagi við sveitarstjórnarkosningar 2018.
Fjórar umsagnir bárust umhverfis- og samgöngunefnd. Ber þar helst að nefna umsögn forsætisnefndar Reykjavíkurborgar sem lagðist gegn málinu. Þar segir m.a.: “Forsætisnefnd hefur unnið markvisst að fjölgun borgarfulltrúa eftir gildandi lögum allt þetta kjörtímabil og furðar sig á því að undir lok þess kjósi löggjafinn einhliða að setja hlutverk hennar að þessu leyti í óvissu og hundsa með öllu fyrri umsögn hennar.”

Flest þessara frumvarpa fjalla um kosningar til sveitarstjórna sem verða næst haldnar eftir tæpt ár, í lok maí 2018. Ólíklegt verður talið að á haustþingi verði gerð sú breyting sem Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði til (um afturköllun fjölgunar borgarfulltrúa). Markast það af því að þá verður tíminn til sveitarstjórnakosninga of skammur. Önnur frumvörp sem lúta að kosningarétti ungmenna og erlendra ríkisborgara gætu hins vegar vel verið afgreidd þá, enda eru þær breytingar einfaldari, þó þær séu að sjálfsögðu ekki smávægilegar.

Tvö frumvörp komu svo ekki til 1. umræðu, bæði borin fram af Viktori Orra Valgarðssyni, Pírata.
Kosningar til Alþingis (skipting þingsæta) og Kosningar til Alþingis (persónukjör þvert á flokka).

Að lokum er vert að minnast á viðamikið frumvarp um endurskoðun á undirbúningi og framkvæmd kosninga til Alþingis sem forsætisnefnd þingsins lagði fram á síðasta þing (því 145.) en kom ekki til afgreiðslu þá, og ekki heldur á nýafstöðnu þingi. Það frumvarp var samið af vinnuhópi um endurskoðun kosningalaga og inniheldur ýmsar nýjungar við framkvæmd kosninga til Alþingis. Helst má þar nefna ákvæði um að kjörskrá geti verið rafræn sem og að hlutverk Landskjörstjórnar er skýrt og eflt.

– Páll Hilmarsson