Kosningar

Of- og vanmældir flokkar

Þegar fylgiskannanir eru teknar saman, eins og hefur verið gert hér, er oft unnið út frá þeirri forsendu að ekki sé um kerfisbundnar of- eða vanmælingar á tilteknum flokkum að ræða. Ef um ókerfisbundnar of- eða vanmælingar er að ræða ættu slíkar skekkjur að að dreifast með tilviljanakenndum hætti á könnunaraðila og vera í báðar áttir, þ.e. að stundum er einhver flokkur vanmældur og stundum er hann (eða annar) ofmældur. Lykilatriði er að gengið er út frá þeirri forsendu að engar kerfisbundnar skekkjur eigi sér stað. Með því að safna könnunum saman og birta mat á fylgi ættu slíkar ókerfisbundnar bjaganir að jafnast út, þ.e. ofmæling hjá einum aðila ætti að jafnaði að núllast út í könnunum hjá öðrum aðila og í öðrum könnunum hjá sama aðila. Í síðasta mati okkar á fylgi flokkana má segja að við höfum gefið okkur þá forsendu að enginn flokkanna sé kerfisbundið of- eða vanmetin.

Annað atriði sem segja má að gengið sé út frá er að það sé kerfisbundinn munur í nákvæmni á milli könnunaraðila (annar en úrtaksstærð). Þ.e.a.s. að við gerum ekki ráð fyrir því að gæði eða nákvæmni eins könnunaraðila séu meiri eða minni en annarra. Sjá má dæmi um hið gagnstæða hjá kosningaspá.is sem rekin er af Baldri Héðinssyni og Kjarnanum. Þar eru kannanir með mismikið vægi eftir því hver framkvæmir hana.

Því má spyrja sig tveggja spurninga:

  1. Er eitthvað sem bendir til þess að það sé munur á gæðum eða návæmni fylgiskannana eftir því hver framkvæmir?
  2. Bendir eitthvað til þess að einhverjir flokkar séu of- eða vanmældir á kerfisbundinn hátt? Ef svo er, eru einhverjir ákveðnir könnunaðilar sem of/vanmæla einhverja flokka umfram aðra?

Skekkjur mældar

Sú mæling á skekkju könnunaraðila sem er þekktust (þó sjaldnast undir því nafni) er ein af átta mælingum Mostellers. Hún er skilgreind sem meðalfrávik í prósentustigum á mældu fylgi og kosningafylgi fyrir hvern flokk eða kandídat (hvort sem er verið að ræða um) án tillits til í hvora áttina skekkjan er (tölugildið er notað).

Dæmi: Flokkur X er mældur með 26% stuðning í könnun en fær 25% atkvæða í kosningum. Frávikið fyrir þann flokk yrði þá 1. Flokkur Y er mældur með 25% en fær 26% atkvæða í kosningum. Frávikið er er einnig 1. Flokkur Z er mældur með 35% í könnun en fær 32% atkvæða. Frávikið er 3. Síðan er tekið meðaltal af frávikinu og fundin út heildarskekkja. Hér yrði hún \(\frac{1+1+3}{3}=1,67\).

Árið 2005 gáfu Martin, Traugott, & Kennedy út grein þar sem sett var fram ný mæling á kannanaskekkju, kölluð \(A\). Í stuttu máli er túlkunin á A á þann veg að neikvætt A merkir að könnunaraðili hafi vanmetið frambjóðanda og jákvætt A að hann hafi verið ofmetinn. A er sett fram sem lógariðmi af gagnlíkindahlutfalli (Odds Ratio) og er því mælingin samhverf um núll. Þessi mæling á skekkju er nokkur framför frá Mosteller mælingunni sem lýst er hér að ofan.

Hins vegar hentar \(A\) illa þegar kemur að fjölflokka kerfi þar sem ávallt þarf að miða mælinguna við samanburð við annan valkost (flokk eða kandídat), enda sniðin að bandaríska kerfinu þar sem oftast er valið milli demókrata og repúblikana. Til að gera langa sögu stutta útvíkka Arzheimer og Evans þessa mælingu yfir í \(A’\) og \(B\) (og \(B_w\)). Arzheimer og Evans átta sig á tengingu A við logistic líkanið og útvíkka það yfir í nafnbreytu (multinomial) logistic líkan. Skekkju fyrir hvern flokk i er hægt að mæla með \(A_i\) sem er 0 þegar enginn skekkja er og í – þegar flokkur er vanmetinn og + þegar hann er ofmetinn.

Þessar mælingar henta vel því hægt er að nota þær sem fylgibreytur í aðhvarfslíkani (t.a.m.). Án þess að fara um of út í tæknilegar hliðar þessara mælinga eru hér settar fram athuganir úr tveimur seinustu þingkosningum á Íslandi. Hér og hér er hægt að kynna sér nánar rannsóknir þeirra.

Heildarskekkja (\(B\) og \(B_w\))

Á grafinu hér að neðan er að finna \(B_w\) sem er vigtuð heildarskekkja könnunaraðila úr kosningunum 2013 og 2016. Einungis er miðað við eina könnun (seinustu könnun sem birt var). Eins og sjá má var nokkur munur á milli kosninganna.

Vigtuð skekkja fyrir Alþingiskosningar 2013/16 eftir könnunaraðilum.

Vigtuð skekkja fyrir Alþingiskosningar 2013/16 eftir könnunaraðilum.

Kosturinn við \(B_w\) sem mælingu er að hægt er að nota hana sem fylgibreytu í aðhvarfsgreiningarlíkani þar sem við getum athugað hvort það sé munur á milli könnunaraðila með því að hafa kóða könnunaraðila sem dummy breytur í líkaninu. Við nýtum því kannanir sem birtust á seinustu mánuðum fyrir kosningar sem mælingar. Þar sem kannanir verða nákvæmari eftir því sem styttra er til kosninga þá notum við breytu sem mælir tíma til kosninga (í dögum) sem stjórnbreytu. Við stjórnum einnig fyrir úrtaksstærð kannana til að einangra betur mögulega áhrif einstakra könnunaraðila.

Línulegt aðhvarfsgreiningarlíkan fyrir B_w fyrir þingkosningar 2016

Línulegt aðhvarfsgreiningarlíkan fyrir B_w fyrir þingkosningar 2016

Hér að ofan eru niðurstöður úr aðhvarfslíkani þar sem \(B_w\) er (vigtuð) heildarskekkjakönnunaraðila, dtk er stjórnbreyta fyrir tíma til kosninga (í dögum) og n2 er úrtaksstærð (og nei, hún er ekki í öðru veldi, heitir bara n2 í gagnasafninu). Síðan eru dummy breytur fyrir Félagsvísindastofnun, Gallup og MMR. Fréttablaðið er viðmiðunaraðili. Athugaðar eru 24 kannanir. Svipaða niðurstöður er að finna fyrir þingkosningar 2013 (ekki sýnt).

Niðurstaða

Ekki er hægt að álykta um að það sé munur á milli könnunaraðila þegar kemur að skekkju milli kosninga og seinustu kannana í aðdraganda kosninga. Athuga þarf að það þýðir ekki að engin skekkja sé á milli kannana og úrslita (hún er það nánast alltaf), heldur að ekki er hægt að álykta að einn könnunaraðili sé með meiri skekkju en hinn.

Ástæðan fyrir því að við gefum ekki könnunaraðilum mismunandi vægi út frá áreiðanleika í mati okkar á fylgi flokka, eru niðurstöðurnar hér að ofan.

Skekkja í mælingu einstakra flokka

Í samantekt á mælingum \(A_i\) (skekkja fyrir tiltekna flokka á) í kosningum 2013 og 2016 er tvennt sem stendur upp úr: Sjálfstæðisflokkurinn er alla jafna vanmældur í könnunum nokkuð stöðugt seinustu mánuðum fyrir kosningar og flokkur Pírata ofmældur að sama skapi. Þessi of- og vanmæling virðist einnig vera í sömu átt hjá öllum könnunaraðilum, en af mismikilli stærð (þó munurinn á milli þeirra sé innan vikmarka). Aðrir flokkar er ekki of- eða vanmældir að sama skapi, sumir að frekar litlu leyti og aðrir að litlu leyti en skekkjur milli aðila núllast út í heildarskekkju.

Forspágildi fyrir A’
Variable Sjálfstl.fl. VG Píratar framsokn Viðreisn BF Samfylking
A’
2016 -0,2760 -0,0171 0,3639 -0,0858 -0,0124 0,0065 0,1930
2013 -0,2815 -0,2685 0,3858 0,3883 0,3077 -0,0731

 

Af einhverjum ástæðum virðist svo vera, a.m.k í seinustu tveimur þingkosningum, að fylgiskannanir hafi verið að vanmeta fylgi Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga, og ofmeta fylgi Pírata. Hvað það er sem hefur áhrif á þessa skekkju er ekki hægt að sjá út frá þessum gögnum og hafa ber í huga að hér er einungis verið að miða við útkomur í úrvinnslu (þ.e. reiknað fylgi í könnunum, við erum ekki með míkró-/hrágögnin). Líklegt verður að teljast að eitthvað í úrtaksaðferðum könnunaraðilana verði til þess að slíkt mynstur kemur fram. Af einhverjum ástæðum virðist vera erfiðara að fá kjósendur Sjálfstæðisflokks til þess að taka þátt í fylgiskönnunum og (of) auðvelt að fá stuðningsfólk Pírata. Hægt er að velta því fyrir sér hvaða ástæður eru fyrir þessum mun.

Niðurstaða

Vísbendingar eru í þá átt að könnunaraðilar ofmeti kerfisbundið fylgi flokks Pírata og vanmeti kerfisbundið fylgi við Sjálfstæðsflokk.

Í mati okkar á fylgi flokkana hefur ekki verið reynt að meta og vega of- eða vanmat á fylgi flokkana í fylgiskönnunum. Hins vegar benda þessar niðurstöður til þess að það gæti bætt matið og gert það nákvæmara. Augljós ókostur er að við vitum ekki hvaða öfl og gangverk eiga sér stað sem stýra þessari (líklegu) skekkju. Við munum hins vegar í ljósi þessara athugana endurmeta gögn frá könnunaraðilum til þess að reyna að leiðrétta fyrir ofangreindum atriðum.

– Helgi Eiríkur Eyjólfsson

Kosningaætlun landsmanna fyrir þingkosningar 2017

Mat á kosningaætlun 27 sept

Við endurtökum leikinn frá þingkosningum 2013! Þá tókum við saman kannanir sem birtust fyrir kjördag og drógum þær saman og skoðuðum í samhengi. Mögulega fyrst allra á Íslandi? Hver veit. Nú eru nýir og breyttir tímar og aðrar (vonandi betri) aðferðir.

Gengið verður til þingkosninga á Íslandi þann 28. október næstkomandi eftir nokkuð bráð stjórnarslit sem urðu 15. september. Þá sleit Björt framtíð ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn. Forseti rauf þing stuttu seinna og boðaði þar með til kosninga.

Hér er markmiðið að auðvelda okkur og öðrum að leggja mat á hvað fylgiskannanir eru að segja okkur og hvernig staðan í fylgi flokkanna í kosningabaráttunni er. Ef hver fylgiskönnun sem birtist er tekin og skoðuð einangruð frá öllum öðrum fylgiskönnunun, getur verið snúið að átta sig á stöðunni. Með því að draga þær allar saman og líta á þær sem gagnapunkta getum við síað út suðið og reynt að átta okkur betur á merkinu.

Eftir því sem kannanir berast munum við uppfæra matið á fylginu og ekki síst mat á óvissunni. Við gerum það með því að mata baysískt tölfræðilíkan á uppfærðum gögnum. Markmiðið er að geta lagt öruggara mat á undirliggjandi fylgið við hvern flokk en einstakar kannanir gefa okkur.

Við munum auk mats á fylgi flokkana á hverjum tíma gera grein fyrir því hvaða flokkur er líklegastur til að fá flest atkvæði á landsvísu, og þar með „sigra“ kosningarnar. Einnig munum við leggja mat á hversu líklegt er að flokkar sem eru við 5% mörkin séu við að fá 5% eða meira fylgi á landsvísu. Það er algengur misskilningur að í íslenska kosningakerfinu sé 5% þröskuldur sem flokkar þurfa að ná til að koma til greina við úthlutun þingsæta. Það er ekki svo. Hin svokallaða „5% regla“ er hins vegar sú regla að til þess að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta verður flokkur að vera með að lágmarki 5% á landsvísu. Flokkur með mikið fylgið í einu kjördæmi getur því alveg fengið kjördæmakjörið þingsæti, en verið undir 5% fylgi á landsvísu. Kjördæmakjörni þingmaður þess flokks fengi að sjálfsögðu sitt sæti þó að flokkurinn kæmi ekki til greina í úthlutun jöfnunarsæta. Þetta er þó ekki algengt, en hefur gerst. Árið 1999 fékk Frjálslyndi flokkurinn 17.7% fylgi á Vestfjörðum, en einungis 4,2% á landsvísu.

Líkanið

Til að meta hvert fylgið er notast við Baysískar tölfræðiaðferðir og Monte Carlo hermanir við gerð líkansins. Líkanið er að mestu leyti byggt á líkani sem Kai Arzheimer notaðist við til að greina fylgiskannanir í þýsku þingkosningunum og má lesa um hér. Okkar líkan byggir á aðferðum hans, vinnu Simon Jackman og bloggins Mark the ballot.

Fylgi við flokka á hverjum tíma (kosningaætlun eða voting intention) er ekki hægt að skoða með beinum hætti. Fylgið er m.ö.o. dulin stærð. Á því er ein undantekning og það eru kosningar, sem er eini tímapunkturinn þar sam fylgið er ekki dulin stærð.

Því er líkan notað til að meta fylgi fyrir hvern dag á tímabilinu sem er verið að skoða. Kosningaætlun breytir því um stöðu á hverjum degi tengjast saman og mynda Markov-ferli. Matið byggir á því að kosningaætlun í dag er sé að mestu leyti eins og hún var í gær og fylgi einhverri líkindadreifingu. Þannig gerir líkanið ráð fyrir að kosningaætlun í dag sé að mestu leyti eins og kosningætlun í gær. Gagnapunktar líkansins eru fylgiskannanir sem birtast með óreglulegu bili og er líkanið uppfært með þeim gögnum.

Til að fá niðurstöður úr líkaninu er beitt aðferð byggðri á Markov keðjum og slembitölum og kallast Markov keðju Monte Carlo aðferðir.

Líkanið er enn í vinnslu og gæti breyst frá því þetta er skrifað (2.okt 2017).

Meira um aðferðafræði þess hvernig fylgið/kosningaætlun er metin kemur síðar (væntanlega/kannski).

Staðan samkvæmt nýjustu könnunum

Á myndinni má sjá niðurstöður líkansins um hvert miðgildi fylgis er ásamt 95% Baysískum öryggisbilum (credible interval).

Mat á kosningaætlun 27 sept

Í töflu:

Mat á fylgi flokka 27. sept 2017
Flokkur lægri efri miðgildi
Sjálfstæðisfl. 21.1 26.9 24.0
Vinstri græn 23.1 28.2 25.7
Píratar 8.9 12.7 10.8
Viðreisn 3.0 5.7 4.3
Framsókn 5.3 8.6 7.0
Samfylkingin 6.9 10.5 8.7
Flokkur fólks 6.7 10.1 8.4
Björt framtíð 2.6 5.0 3.8
Stj.fl. SDG 5.1 7.7 6.4

Þróun stærri flokka (>10%) yfir tíma

Þróun stærri flokka 27 sept

Grafið sýnir hvernig líkanið metur þróun fylgis Sjálfstæðisflokks og VG síðustu vikur. Línurnar tákna matið á fylgi, skyggðu svæðin tákna 95% credible interval, og punktarnir eru einstakar kannanir. Punktalínan sem er dregin 15. sept táknar stjórnarslitin.

Þróun minni flokka (<10%) yfir tíma

Þróun smærri flokka

Grafið sýnir hvernig líkanið metur þróun fylgis annarra helstu flokka (~ 10% fylgi) síðustu vikur. Línurnar tákna hvernig líkanið metur fylgið, og punktarnir eru einstakar kannanir. Punktalíkan sem er dregin 15. sept táknar stjórnarslitin, og rauða punktalínan á y-ásnum táknar lágmarkið til að geta fengið uppbótarþingsæti. Skyggðu svæðunum er sleppt hér til að gera grafið læsilegra. Athugið að matið á nýja Miðflokknum er ónákvæmara en mat á öðrum þar sem hann kom ekki fram fyrr en seint á tímabílinu.

Siguvegari kosninganna

Dreifing fylgis D og V

Niðurstöður úr 60 þúsund hermunum. Myndin sýnir hvernig fylgið dreifist hjá tveimur stærstu flokkunum (Sjálfstæðisflokki og Vinstri grænum). Gæti fallið hvoru megin sem er eins og staðan er 27. sept 2017. Í töflunni hér að neðan má sjá líkurnar (í prósentum) á að VG sigri Sjálfstæðisflokkinn (fleiri atkvæði á landsvísu) annarsvegar og hinsvegar líkurnar á að Sjálfstæðisflokkur sigri VG.

Flokkur Líkindi að sigra hinn
Vinstri græn 77.4%
Sjálfstæðisflokkur 22.6%

Ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Koss dauðans?

Líkanið metur líkindi Bjartrar framtíðar að komast á þing frekar lág. Í 60 þúsund hermunum nær BF 5% marki fyrir uppbótarþingmenn í \(\frac{1793}{60000}\) tilfella. Það gerir 3% líkur á að BF komist á þing.

Aðrir sem eru við þröskuldinn eru Viðreisn með punktmat upp á 4.3%. Líkanið metur líkindin á að Viðreisn sé yfir 5% upp á 17.5%. Í töflunni að neðan má sjá líkindin á að vera fyrir ofan 5% eins og staðan er skv. nýjustu fylgiskönnunum.

Flokkur Líkindi að fylgi sé \(\geq 5\%\)
Björt framtíð 3%
Viðreisn 17.5%
Miðflokkur SDG 98.5%
Framsókn 99.2%
Flokkur fólksins 99.2%

Eins og sjá má metur líkanið að Miðflokkur SDG, Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins yrðu örugg inn. Hins vegar er Björt framtíð með hverfandi líkur en Viðreisn aðeins betri.

Líkanið mun uppfærast eftir því sem gögn bætast við eða líkanasmíð framvindur.

– Helgi Eiríkur Eyjólfsson

 

Frumvörp um kosningar á 146. þingi og afdrif þeirra

kjordagur-0881-1_1

Við hér hjá hinu stafræna samlagi, gogn.in, erum ekki bara áhugafólk um kosningar, heldur störfum við mörg hver við kosningar. Undirritaður hefur t.d. borið ábyrgð á meðferð utankjörfundaratkvæða við allar almennar kosningar í Reykjavík síðan 2011, auk þes að koma að uppgjöri og undirbúningi allra þeirra kosninga í samstarfi við starfsfólk Reykjavíkurborgar og yfirkjörstjórnir.

Á því þingi sem nú var að ljúka komu fram nokkur þingmál sem lúta að kosningum. Förum nú yfir þau.

Byrjum á þeim frumvörpum sem urðu að lögum:

Það er stuttur listi. Ekkert frumvarp sem lýtur að kosningum varð að lögum.

Eitt frumvarp náði alla leið í þriðju umræðu og atkvæðagreiðslu:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningarréttur erlendra ríkisborgara)

Frumvarpið, sem er borið fram af þingmönnum Viðreisnar, miðar að því að stytta þann tíma sem erlendir ríkisborgarar þurfa að dvelja hér, áður en þeir fá kosningarétt (og kjörgengi) í sveitarstjórnarkosningum. Með frumvarpinu fylgdi tafla þar sem Norðurlöndin eru borin saman:

Screenshot 2017-06-01 21.58.08

Með frumvarpinu var lagt til að hér yrði staðan sú sama og í Danmörku og Svíþjóð. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fjallaði um frumvarpið, sendi 58 aðilum umsagnarbeiðnir og fékk 6. Allar umsagnir voru jákvæðar, nema umsögn lýðræðisfélagsins Öldu, sem vildi ganga enn lengra og afnema öll tímamörk á kosningarétti erlendra ríkisborgara. Eftir umfjöllun nefndarinnar varð það úr að hún lagði til að frumvarpinu yrðir vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Fyrsti flutningsmaður, Pawel Bartoszek lét þess getið í atkvæðagreiðslu um tillögu nefndarinnar (sem var samþykkt) að Dómsmálaráðuneytið mætti eiga von á að finna sinn “hlýja andardrátt á hnakka sínum” til að tryggja framgang málsins.

Þrjú frumvörp voru í nefnd þegar þingfundum var frestað.

Kosningar til sveitarstjórna (kosningaaldur)

Frumvarpið, sem er borið fram af fulltrúm allra flokka, er sett fram til að lækka kosningaaldur í kosningum til sveitarstjórna úr átján árum í sextán. Tuttugu umsagnir bárust allsherjar- og menntamálanefnd, nær allar jákvæðar. Íslenska Þjóðfylkingin sagði í sinni umsögn að “gjörningurinn væri arfa vitlaus”.

Sveitarstjórnarlög (íbúakosningar)

Píratar endurfluttu frumvarp sitt um breytingar á sveitarstjórnarlögum sem kveða á um að hlutfall íbúa sem þarf til að fara fram á íbúakosningu skuli vera 20% eða hærra. Frumvarpið miðar að því að afnema þann þröskuld og gefa sveitarstjórnum sjálfdæmi í því hversu hátt (eða lágt) hlutfallið þarf að vera. Frumvarpið gekk til umhverfis-og samgöngunefndar sem sendi 90 umsagnarbeiðnir en fékk einungis tvær sendar til sín. Önnur frá Fljótsdalshéraði sem tók ekki afstöðu og aðra frá ASÍ sem “gerir ekki athugasemdir við efni málsins”.

Sveitarstjórnarlög (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn)

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flutti stjórnarfrumvarp um breytingar á sveitarstjórnalögum þar sem lágmarksfjöldi aðalmann í sveitarstjórn í sveitarfélögum þar sem íbúar eru 100 þúsund eða fleiri skal vera 23. Einungis eitt sveitarfélag uppfyllir það, Reykjavíkurborg, en þar eru nú borgarfulltrúar fimmtán. Við komandi sveitarstjórnarkosningar verður því, samkvæmt núgildandi lögum, borgarfulltrúum fjölgað í 23 að lágmarki (og 31 að hámarki).
Frumvarpið gengur út á að afturkalla þessa fjölgun borgarfulltrúa en hún hefur verið hluti af lögunum allt frá setningu þeirra árið 2011, en þó með því bráðabirgðarákvæði þess efnis að breytingin tæki ekki gildi fyrr en við aðrar kosningar frá setningu. Semsagt í fyrsta lagi við sveitarstjórnarkosningar 2018.
Fjórar umsagnir bárust umhverfis- og samgöngunefnd. Ber þar helst að nefna umsögn forsætisnefndar Reykjavíkurborgar sem lagðist gegn málinu. Þar segir m.a.: “Forsætisnefnd hefur unnið markvisst að fjölgun borgarfulltrúa eftir gildandi lögum allt þetta kjörtímabil og furðar sig á því að undir lok þess kjósi löggjafinn einhliða að setja hlutverk hennar að þessu leyti í óvissu og hundsa með öllu fyrri umsögn hennar.”

Flest þessara frumvarpa fjalla um kosningar til sveitarstjórna sem verða næst haldnar eftir tæpt ár, í lok maí 2018. Ólíklegt verður talið að á haustþingi verði gerð sú breyting sem Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagði til (um afturköllun fjölgunar borgarfulltrúa). Markast það af því að þá verður tíminn til sveitarstjórnakosninga of skammur. Önnur frumvörp sem lúta að kosningarétti ungmenna og erlendra ríkisborgara gætu hins vegar vel verið afgreidd þá, enda eru þær breytingar einfaldari, þó þær séu að sjálfsögðu ekki smávægilegar.

Tvö frumvörp komu svo ekki til 1. umræðu, bæði borin fram af Viktori Orra Valgarðssyni, Pírata.
Kosningar til Alþingis (skipting þingsæta) og Kosningar til Alþingis (persónukjör þvert á flokka).

Að lokum er vert að minnast á viðamikið frumvarp um endurskoðun á undirbúningi og framkvæmd kosninga til Alþingis sem forsætisnefnd þingsins lagði fram á síðasta þing (því 145.) en kom ekki til afgreiðslu þá, og ekki heldur á nýafstöðnu þingi. Það frumvarp var samið af vinnuhópi um endurskoðun kosningalaga og inniheldur ýmsar nýjungar við framkvæmd kosninga til Alþingis. Helst má þar nefna ákvæði um að kjörskrá geti verið rafræn sem og að hlutverk Landskjörstjórnar er skýrt og eflt.

– Páll Hilmarsson

20140205_141029

Rafrænar íbúakosningar og öryggi

Vorið 2013 voru samþykktar breytingar á sveitarstjórnarlögum, sérstaklega til að auðvelda framkvæmd rafrænna íbúakosninga. Þjóðskrá var falið að framfylgja því, þróa og reka kosningakerfi. Ári síðar var kynntur samningur Þjóðskrár og spænska fyrirtækisins Scytl um kaup á kerfi. Jafnframt var tilkynnt að stefnt væri að tilraunakosningum í tveimur sveitarfélögum á haustdögum 2014. Það gekk ekki eftir, en í samningnum er tilgreint að prufukeyrsla geti farið fram allt þar til 30. júní á þessu ári rennur upp.

Samhliða kynningunni á samningnum hélt þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttirfund fyrir sveitarfélög (varúð: PDF). Ég komst ekki á sjálfan fundinn, en fylgdist með netútsendingu og sendi inn svohljóðandi spurningu:

Það kom fram að kóði kerfis Scytl væri alfarið opinn og aðgengilegur.

Hvar er sá kóði? Það er, hvar er hægt að nálgast hann?

Nú man ég ekki nákvæmlega svarið, en það var eitthvað á það leið að verið væri að vinna í þessu öllu og fljótlega yrði þetta gert opinbert. Það er margt erfitt við framkvæmd á rafrænum kosningum, bæði tæknilega og félagslega, en ég ætla ekki að fara út í það hér. Geri það kannski seinna, en almennt get ég sagt að hrifning mín á kosningum yfir internet er ekki mikil. En ef á að fara slíka leið, þá er það eiginlega frumforsenda að hægt verði að fullvissa sig um að kerfið geri það sem það segist gera, ef traust á því og framkvæmd kosninganna á að vera eitthvert. Að öðrum kosti er tæknikerfið eins og einhverskonar svartur töfrakassi sem enginn/fáir vita hvort eða hvernig virkar.

Í júní í fyrra birtist svo grein á vef Þjóðskrár undir liðnum ‘Tíðindi af verkefninu’. Þar segir:

Rætt hefur verið um mikilvægi þess að kóði kosningakerfisins sé aðgengilegur til rýni, m.a. með það að markmiði að stuðla að gagnsæi og auka traust. Í samningi Þjóðskrár Íslands um notkun á kosningakerfi Scytl í tvennum tilraunakosningum er Þjóðskrá Íslands veittur aðgangur að frumkóða kerfisins ásamt heimild til að afhenda óháðum úttektaraðilum frumkóða til rýni. Í þeim tilraunakosningum sem framundan eru rýnir óháður íslenskur úttektaraðili frumkóðann og tekur út lykilþætti kerfisins.

Þannig er nú það. Ég hvet þig til að kynna þér efni um framkvæmd þessara ætluðu íbúakosninga og senda Þjóðskrá athugasemdir. Þar sýnist mér vera mikill vilji til að gera sem best.

Ekki síst hvet ég Þjóðskrá til að endurskoða þennan hluta framkvæmdarinnar, gera frumkóða kerfisins aðgengilegan til skoðunar.

Fylgi flokkanna á kjördag

Í gær birtum við nokkur gröf um þróun fylgis flokka í þessum pósti hér en á þeim tíma sem myndirnar voru plottaðar og til dagsins í dag hafa bæst við þrjár kannanir í gagnasettið. Í dag er kjördagur og því liggur nokkuð ljóst fyrir að seinustu fylgiskannanir eru komnar í hús. Því er ekkert minna en sjálfsagt að keyra aftur út greiningar á fylginu miðað við nýjustu mælipunkta. Svona lítur því fylgið út á kjördag, samkvæmt fylgiskönnunum: p-final2

 

Frá því í gær hefur ekki mikið óvænt gerst. Sjálfstæðisflokkur heldur áfram að vinna á og Framsókn dalar. Því verður það fullyrt hér að Sjálfstæðisflokkurinn verður „sigurvegari“ kosninganna í dag. Eða öllu heldur sá flokkur sem nær mestu fylgi. Spurningin er bara hvort flokkurinn nái að komast yfir 30% eða ekki. Ríkisstjórnarflokkarnir Vinstri græn og Samfylkingin halda áfram að bæta við sig fylgi, en þetta of lítið og of seint. Björt framtíð heldur áfram að rúlla niður brekkuna sína eins og þau hafa gert allt árið, og upp á síðkastið hefur hún bara orðið brattari ef eitthvað er. Hjá flokki sem vill minna vesen, er þetta töluvert vesen hjá þeim. Píratar, sem hófu árið á mælingu vel undir prósenti, hafa verið á góðri siglingu alla kosningabaráttuna og náð árangri sem væntanlega kom mörgum á óvart. Kannski ekki síst þeim sjálfum. En kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið og meðbyrinn virðist hafa minnkað seinustu daga og viku og vísar nú enda línunnar niður á við. Kjördagur hlýtur því að vera dagur varnarbarráttu nýju framboðanna.

Stóra myndin í fylgisþróun

Til samanburðar á myndinni að ofan um fylgisþróun flokkana er ágætt að bera hana saman við mynd sem birtist í Fréttablaðinu í dag í góðri samantekt Kolbeins Óttarssonar Proppé á kosningabaráttunni . Þar fylgir eftirfarandi mynd umfjölluninni og sýnir mælingar Fbl./S2 á fylgi flokkanna. Fbl kannanir KOP kosningadagur

Hér má sjá glöggt sjá muninn á þessum tveimur framsetningum. Munurinn á grafi Fbl. og grafi okkar er  nokkur. Hjá Fréttablaðinu er ekki að sjá að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stefna í sitthvora áttina; Framsókn niður í fylgi og Sjálfstæðisflokkur upp. Björt framtíð og Píratar virðast jafnvel vera að bæta við sig fylgi, en ekkert slíkt í að sjá í okkar greiningu, þar sem allar mælingar sem okkur standa til boða eru notaðar. Það er því spurning hví Fréttablaðið kýs nota einungis sínar eigin fylgiskannanir en ekki aðrar sem liggja á lausu. Einfalt fréttamat getur ekki ráðið því, ekki nema að fréttamatið sé að aðrar fylgiskannanir séu ónothæfar.

Samanburður mælinga

Hér að neðan má svo sjá samanburð á fylgismælingum flokkana. Það getur verið ágætt að velta því fyrir sér hvort það sé möguleiki á einhverjum „house effects“ hjá mismunandi könnunarfyrirtækjum þegar litið er yfir þessi gröf; þ.e.a.s. hvort könnunaraðilar mæli einhverja flokka alla jafna hærri eða lægri en aðrir.

P2-final2

 Fylgi einstakra flokka

Ap-final2 Vp-final2 Sp-final2 Dp-final2Pp-final2

Bp-final2

 

Gleðilegan kjördag, allir saman!

– Helgi Eiríkur Eyjólfsson, helgi.eirikur@gmail.com@svelgur