Ársskýrslur Útlendingastofnunar

Tölfræði ársins 2009 á vef Útlendingastofnunar

Tölfræði ársins 2009 á vef Útlendingastofnunar

Í 7. grein reglugerðar um um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta segir:

Í samræmi við áherslur og markmiðssetningu um árangursstjórnun, bera forstöðumenn ábyrgð á gerð langtímaáætlunar stofnunar, ársáætlunar og ársskýrslu. Langtímaáætlunin skal endurspegla stefnumörkun og megináherslur starfseminnar. Ráðuneyti ber skylda til að taka afstöðu til langtímaáætlunar stofnana. Ársáætlunin skal rúmast innan fjárheimilda auk þess að tilgreina einstök markmið og mælikvarða á árangur í starfi stofnunar.Í ársskýrslu skal koma fram samanburður á útgjöldum og fjárheimildum, auk talnalegs samanburðar á markmiðum ársins og útkomu.

Útlendingastofnun er ríkisstofnun sem fellur undir þessa reglugerð, enda í A-hluta fjárlaga. Í seinustu fjárlögum var stofnuninni úthlutað 175 milljónum í almennan rekstur. Á heimasíðu stofnunarinnar má lesa þær ársskýrslur sem gefnar hafa verið út. Þær eru fáanlegar fyrir árin 2001-2004 og 2008-2010. Engin skýrsla er semsagt til fyrir árin 2005, 2006, 2007, 2011 og 2012.

Þann 1. júlí síðastliðinn sendi ég stofnuninni eftirfarandi bréf:

Heil og sæl.
Hvað líður útgáfu ársskýrslu Útlendingastofnunar?
Kveðjur,
Páll Hilmarsson

Degi síðar barst mér þetta svar:

Sæll Páll

Ársskýrslan okkar er enn í vinnslu en vinnan hefur því miður gengið hægt sökum mikils verkefnaálags hjá stofnuninni í ár. Ég geri ekki ráð fyrir að hún komi út fyrr en með haustinu þar sem nú eru sumarfrí í fullum gangi. Ársskýrslan verður hins vegar birt á heimasíðunni okkar um leið og hún er tilbúin.

kv.
Þorsteinn Gunnarsson Lögfræðingur / Lawyer Sviðsstjóri leyfasviðs / Head of department

Það má því búast við því að stofnunin gefi bráðlega út ársskýrslu seinasta árs þar sem sumarfríum er væntanlega að mestu lokið. Vonandi mun þá einnig gefast tími hjá stofnuninni til að ljúka (eða hefja) vinnu við ársskýrslu ársins 2011.

Í inngangi skýrslunnar fyrir árið 2004 segir Hildur Dungal, þá settur forstjóri stofnunarinnar:

Miklu skiptir að umræða í samfélaginu einkennist af þekkingu á viðfangsefninu og virðingu fyrir þeim einstaklingum sem því tengjast. Meðvitað, gagnrýnið og vel upplýst samfélag er líkegra til að þróast til jákvæðra verka og taka framförum sem eru öllum íbúum til hagsbóta.

Ég hvet fólk eindregið til að kynna sér efni skýrslunnar en þar er ýmsan fróðleik að finna ásamt áhugaverðum viðtölum við valda einstaklinga.

Þetta er vel mælt. Útlendingastofnun er umdeild stofnun, ákvarðanir hennar eru ítrekað til umræðu í samfélaginu. Stofnunin hefur afar lítið traust meðal almennings samkvæmt könnunum. Þessvegna er mikilvægt að gögn og upplýsingar um stofnunina, rekstur hennar og starfsemi liggi fyrir.

Skýrslur áranna 2008, 2009 og 2010 virðast hafa verið unnar á haustmánuðum 2011 og vormánuðum 2012. Þannig er ávarp forstjóra í skýrslu ársins 2008 dagsett 1. október 2011, í skýrslu ársins 2009 17. janúar 2012 og 2010 skýrslunni 20. febrúar 2012. Þetta er fjögurra ára dráttur á ritun og birtingu skýrslunnar fyrir árið 2008. Er þetta ásættanlegt?

Kristín Völundardóttir, núverandi forstjóri stofnunarinnar, ritar skýrslur áranna 2008-2010. Í skýrslu ársins 2008 segir í inngangi:

Engar ársskýrslur hafa verið gerðar hja´Útlendingastofnun frá árinu 2005. Undirrituð ákvað að byrja á ársskýrslu ársins 2008 og klára einnig ársskýrslu vegna 2009 og 2010. Þegar tími gefst til verður farið í að gera stuttar ársskýrslur vegna áranna 2005-2007. Ætla verður að skortur á gerð ársskýrslna vegna áranna 2005-2007 hafi stafað af manneklu og þá verður að benda á að frá árinu 2008 til 1. júní 2010 var stofnuninni stýrt af settum forstjórum sem hver og einn var settur í stuttan tíma í hvert sinn. Vegna anna hjá þeim voru ársskýrslur ekki kláraðar og því skortir á að skýrslur fyrir árið 2010 hafi t.a.m. ávarp forstjóra eða ítarlega umfjöllum um innlent og erlent samstarf. Stofnunin hefur þó ávallt unnið tölfræði fyrir hvert ár sem hægt hefur verið að nálgast rafrænt.

Útskýringar Kristínar á drætti útgáfu skýrslnanna eru ótrúverðugar. Á árinu 2008 störfuðu 28 manns hjá stofnuninni. Þeim fækkaði í 25 á árinu 2009 og 23 árið 2010. Ríkisstofnun sem hefur tæplega 30 manns í vinnu og ræður ekki við að skrifa ársskýrslur vegna tíðra forstjóraskipta, er illa skipulögð og illa rekin stofnun.

Tilvísun forstjórans til tölfræði sem aðgengileg er rafræn, vísar væntanlega til undirsíðu á vef stofnunarinnar. Þar má finna eftirtalin gögn:

Útgefin dvalarleyfi 1990-2009

Mótteknar umsóknir um dvalarleyfi 2006-2009

Frávísanir 2004-2009

Hér er fjögurra ára gömul tölfræði aðgengileg í pdf-skjölum. Það er ekki ásættanlegt.

Á vef stofnunarinnar er að vísu ein undirsíða sem virðist eiga að birta tölfræði. Hún ber titilinn „Tölfræði 2009“. Efni hennar er þetta:

bla

Að lokum er vert að benda á að þær skýrslur sem stofnunin hefur þó lagt í að skrifa og birta eru gefnar út á pdf-sniði, sem gerir alla úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga afar erfiða.

Það er eitthvað ekki í lagi hjá Útlendingastofnun.