Alþingisvefurinn bættur

Það er eins algild skoðun og getur verið að vefur Alþingis þarfnist stórkostlegra endurbóta. Hlutar vefsins eru, að mér sýnist, keyrðir á perl skriftum frá 1995 og framsetning efnis (sem og aðgengi að því) er fyrir neðan allar hellur.

Eitt sem truflar mig er útlit á ræðum og lagasafni. Engar spássíur eru í texta, sem gerir hann ill-læsilegan. Letur er í smærra lagi og fjöldi neðanmálsgreina gerir línubil ójafnt.

Svona líta lög um framboð og kjör forseta Íslands út á Alþingisvefnum:

Nú eru til ýmsar leiðir til að gera útlit vefsíðna læsilegra. Ein er sú að notast við flýtileið frá Readability. Þá líta lögin svona út:

 

Þetta er ekki alveg nógu gott. Stór hluti texta fær rauðan lit og undirstrikanir.

Önnur svipuð þjónusta er textahamur Instapaper.com. Lögin verða þá svona:

Hér verða litlar myndir sem sýna einstakar lagagreinar alltof stórar.

Ég ákvað að ráðast í að útbúa betra stílsnið. Ég nota oftast einna helst Chrome vafrann (og í neyð Firefox). Fyrir Chrome er hægt að fá viðbótina Stylebot sem gerir manni kleift að nota sérsniðin stílsnið fyrir einstaka vefi. Fyrir Firefox er hægt að notast við Stylish.

Ég útbjó stílsnið fyrir althingi.is fyrir báðar þessar viðbætur. Hér er stílsnið fyrir Stylebot í Chrome og hér fyrir Stylish sem er fáanlegt fyrir Firefox og Chrome. Þau eru einnig aðgengileg hér á github, vilji menn endurbæta þau.

Með þetta stílsnið uppsett þá lítur lagasafnið svona út:

Auk þess breytir stílsniðið útliti ræðutexta á svipaðan hátt. Fjarlægir vatnsmerki og annað slíkt.

Galli á þessari lausn er náttúrulega sá að annað efni á Alþingisvefnum verður svolítið afkáralegt – en þó langt frá því að vera ónothæft. Þannig verður forsíða vefsins svona:

Uppfært: Stylish útgáfan hefur á áhrif á allar síður Alþingisvefsins og því verður sumt efni þar afkáralegt. Stylebot útgáfan hefur einungis áhrif á skjöl, ræður og lagasafn.

Uppfært: Stílsniðið virkar nú þannig að það breytir einungis síðum lagasafnsins og ræðutexta. Snertir ekki á öðrum síðum Alþingisvefsins (ekki að það sé ekki þörf á að laga þær líka til, það er bara meira verk). Takk fyrir ábendingarnar Óli Sindri og Sveinn Birkir.