Héraðsdómar

Þann 29. desember birti fréttastofa Stöðvar tvö frétt um hátt hlutfall sakfellinga í málum sem Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, dæmir í. Fréttina má lesa hér.

Fréttamaður stöðvarinnar tók saman dóma Símonar og komst að því að í rúmlega 99% tilfella enda mál sem fyrir hann koma með sakfellingu. Það er nokkuð hátt hlutfall en er frekar merkingarlaust ef engum samanburði er til að dreifa. Í fréttinni var gerð máttleysisleg tilraun til samanburðar þar sem hlutfall Þorgeirs Inga Njálssonar, dómstjóra við Héraðsdóm Reykjaness, var reiknað sem 93%.

Uppslátturinn í fréttinni, eða í það minnsta undirtexti, var því að Símon Sigvaldason væri afbrigðilegur dómari, hann sakfellti nær alltaf, eins og sagði í fyrirsögn. Til að undirstrika þetta lét fréttamaðurinn fljóta með að Símon væri uppnefndur „grimmi“ hjá „lögmönnum sem hafa tapað hjá honum málum,“ sem eru þá væntanlega flestir þeir verjendur sem hafa flutt mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Agnar Kristján Þorsteinsson skrifaði um fréttina á vef sínum AK-72 og tengdi hana við þá frétt sem var flutt á undan í fréttatímanum og fjallaði um sakfellingu í Vafningsmálinu. Símon Sigvaldason var einn þriggja dómara í því máli. Við færsluna sköpuðust nokkrar umræður og fréttamaður Stöðvar tvö, Þorbjörn Þórðarsson, sem flutti fréttina um Símon grimma, tók þátt.

Þorbergur Steinn Leifsson hafði þetta að segja í athugasemdum hjá Agnari:

Það er margbúið að benda á hvað er einkennilegt við fréttina hér að ofan.
1. Tekinn er einn dómari og borinn saman við einn annan, ekki meðaltal eins og eðlilegt og upplýsandi hefði verið.
2. Ekkert er reynt að komast að því í hvernig málum hann dæmir oftast og hvernig sakfelling er í þeim almennt.
3. Mér varð ekki ljós tengingin við Vafningsmálið þegar ég heyrði þessa furðulegu frétt. Miðað við hver er eigandi Stöðvar2 og gagnrýni á hann hefði fréttastofan átt að passa sig sérstaklega vel í svona málum, þar sem eigandi fréttastofunar var helsti eigandi og skuggastjórnandi Glitnis.
4. Ég hef ekki verið trúaður á hlutdrægni fréttastofu stöðvar 2 hingað til, en neyðist nú því miður til að endurskoða þá afstöðu.

Þessu svaraði Þorbjörn:

Þorbergur, það var ekkert óeðlilegt við fréttina, þótt þú og aðrir bloggarar séuð að hrapa að ályktunum. Hátt sakfellingarhlutfall þessa dómara, sem er mjög mætur maður sem ég þekki persónulega, er hins vegar fréttnæmt.

Fréttin var um þennan tiltekna dómara því hann hefur þetta orð á sér og okkur lék forvitni á að sannreyna hvort það væri einhver innistæða fyrir því. Fréttin var sett fram af sanngirni og hlutlægni og ég ræddi við Símon við vinnslu fréttarinnar. Hann gerði engar athugasemdir.

Áttum við að gera samanburð við alla héraðsdómara á Íslandi? Gerir þú þér grein fyrir því hversu langan tíma það hefði tekið? Þú virðist ekki hafa nokkra einustu þekkingu á starfsumhverfi íslenskra fjölmiðla. Þessi póstur þinn hér framar er bara tóm steypa.

Í fréttinni var tekið fram að eingöngu væri um sakamál að ræða. Hefðir þú semsagt viljað sjá flokkun eftir afbrotum, líkamsárásarmál, efnahagsbrot, kynferðisbrot o.s.frv. ? Hefði það skipt máli? Hvers vegna?

Nú ætla ég ekki að leggja dóm á hvað vakti fyrir Þorbirni með fréttinni en mér þótti sá hluti málflutnings hans sem laut að „starfsumhverfi íslenskra fjölmiðlamanna“ áhugaverður.

Erlendis hefur gagnablaðamennska  (e. datajournalism) farið mjög vaxandi á undanförnum árum, og frétt Þorbjarnar fellur vel þar undir. Þar voru tekin gögn, þeim safnað saman og frétt unnin upp úr gögnunum. Með þetta, eins og með margt annað, virðist íslenskt þjóðfélag vera nokkrum árum á eftir hinum stóra heimi. Þannig hefur lítið borið á gagnablaðamennsku hérlendis, þó Fréttablaðið hafi sýnt nokkra tilburði í þá átt nýlega, sérstaklega í myndrænni framsetningu gagna.

Fjölmiðlar erlendis hafa margir hverjir komið sér upp sérstökum teymum sem einungis fást við slíka blaðamennsku. Hér nægir t.d. að nefna The Guardian, Chicago Tribune, Le Monde og New York Times. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þetta frekar geta lesið hina ágætu bók, The Data Journalism Handbook, sem var gefin út í fyrra af OKFN.

Þar sem þetta hefur best tekist til hafa menn sett saman teymi af blaðamönnum og tæknifólki sem vinna saman inni á ritstjórn. Lengi hafa verið starfandi tæknideildir á ritstjórnum en oftast til hliðar við blaðamenn og ritstjóra. Með því að para saman tæknifólk og blaðamenn og með því að líta á framlag tæknifólksins sem ekkert síður mikilvægt en framlag blaðamannanna hafa skapast ný tækifæri í blaðamennsku, og ekki veitir af.

En aftur að því sem Þorbjörn sagði:

Áttum við að gera samanburð við alla héraðsdómara á Íslandi? Gerir þú þér grein fyrir því hversu langan tíma það hefði tekið?

Ef Þorbjörn ynni á fjölmiðli sem hefði starfsmenn með þekkingu á gagnablaðamennsku  þá hefði svar þeirra við þessari spurningu getað verið: Ekkert sérstaklega langt, kannski klukkutíma að safna dómum og svo hálfur dagur að vinna úr gögnunum. Þannig hefði fréttin orðið mun efnismeiri, vandaðri og líklega hefði ýmislegt annað komið í ljós en bara það að Símon Sigvaldason hefur oft dæmt í málum þar sem sakfellt er.

Til að sýna fram á þetta ákvað ég að gera einmitt það sem Þorbjörn virðist telja óviðráðanlegt verkefni.

Niðurstöður, verkferla og gögn má finna hér.

Utankjörfundaratkvæði í Reykjavík 2003-2012

Í tilefni þess að í dag eru 162 dagar til næstu alþingiskosninga ætlum við að líta á þróun utankjörfundaatkvæðagreiðslna (!) í Reykjavík frá 2003[1. Tölurnar eru unnar upp úr gögnum frá yfirkjörstjórnum í Reykjavík norður og suður og eru birtar með þeirra leyfi].

(more…)

Twitter þjarkur með opnum gögnum á skemman.is

Skemman er rafrænt gagnasafn Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Bifröst, Háskólans í Reykjavík, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Listaháskóla Íslands. Í safninu eru einkum geymd lokaverkefni nemenda en einnig rannsóknarrit kennara og fræðimanna.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn styður opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum og vinnur markvisst að því að vísindalegt efni verði sem víðast aðgengilegt, ekki síst niðurstöður rannsókna sem unnar eru fyrir opinbert fé.

Aðgengi að vísindarannsóknum er mikilvægt.  Open Access hreyfingin[1. Hér er ágætis útlistun á hvað Open Access er: http://www.earlham.edu/~peters/fos/overview.htm] stækkar og stækkar með hverjum mánuðinum. Hér á landi eru nokkur rafræn gagnasöfn sem safna vísindarannsóknum og er skemman.is þeirra stærst.

(more…)

Úrslit í Reykjavíkurmaraþoni 2012

Það er gaman að hlaupa. Sérstaklega þegar þú ert búinn.

Á dögunum fór Reykjavíkurmaraþonið fram í 29. sinn. 13.410 hlauparar hlupu í sex vegalengdum. Úrslit hlaupsins má sjá á vefnum marathon.is. Í maraþoninu sjálfu eru gefnir upp millitímar á 10, 20, 21.1, 25, 30 og 37.2 kílómetra fresti. Það er sett svona fram á vef hlaupsins:

(Millit. 10k,20k,21.1k,25k,30k,37.2k flögut/Splits 10k,20k,21.1k,25k,30k,37.2 Chiptime)

635  5:26:48 (1:04:00/2:09:42/2:16:37/2:47:24/3:28:36/4:34:59/5:25:00)   13 Robert Carl Cluness         1976  18 - 39 ára IS101

Hér má sjá tíma hlauparans Robert Cluness, sem skrifaði um reynslu sína fyrir tímaritið Reykjavík Grapevine undir fyrirsögninni “Run, fatboy, run!

Eins og sést þá er þetta ekkert sérstaklega notendavæn framsetning. Svona gögn gefa ýmsa möguleika og þessvegna hef ég útbúið lítinn vef sem vinnur aðeins með úrslitin. Kíkjum á hvernig það kemur út fyrir tímana hans Roberts:

(more…)

Afbrotatölfræði lögreglunnar á Suðurnesjum

Afbrotatölfræði er gríðarlega mikilvæg. Það er reyndar mín skoðun að öll tölfræði sé gríðarlega mikilvæg, en það deila henni kannski ekki allir. En við getum verið sammála um að afbrotatölfræði sé mikilvæg. Með aðgangi að tölfræði um afbrot má meta forvarnastarf, átta sig á því í hvaða átt samfélagið er að fara, svo dæmi séu tekin.

(more…)

Tenglalisti á PDF sniði

(ó)nytsamlegar vefslóðir fyrir gagnablaðamennsku

PDF skjöl eru uppfinning djöfulsins. Eða öllu heldur: PDF skjöl eru óvinir þeirra sem vinna með gögn. Einu “réttu” notin fyrir PDF skjöl er þegar útlit skjals þarf að halda sér, t.d. þegar efni er sent í prentun. Ég endurtek: PDF skjöl eru uppfinning djöfulsins [1. Hér er ágæt færsla frá Sunlight Labs um ömurleika PDF sniðsins fyrir gögn ].

Allir búnir að ná því?

Ok. Þá höldum við áfram.

Fyrir rétt rúmu ári var stofnuð við Háskóla Íslands Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi (ICIJ-Icelandic Center for Investigative Journalism). Þann 31. maí síðastliðinn birtist frétt á heimasíðu miðstöðvarinnar undir fyrirsögninni “Nytsamlegar vefslóðir fyrir gagnablaðamennsku“. Þar er greint frá því að Margot Williams hafi dreift lista með gagnlegum tenglum fyrir gagnablaðamenn á SKUP ráðstefnunni í Tönsberg. Og svo er listinn birtur. Sem PDF skjal.

Listinn er hérna. Smelltu á tengilinn til að opna skjalið. Prófaðu svo að smella á einhvern tengil í skjalinu.

Magnað, ekki satt?

Hversu nothæfur er tenglalisti á PDF sniði?  Vægt til orða tekið, ekki svo mjög.

Nú eru PDF skjöl mismunandi. Sum eru vistuð út úr forritum og kerfum þar sem innihaldið er í raun texti (sem má t.d. velja í Adobe Reader eða Preview). Þau skjöl má vinna með (en það er ekki þægilegt, er bæði tímafrekt og flókið [2. Hér er dæmi um hvernig má ná efni út úr slíkum PDF skjölum]. Sum eru hinsvegar bara myndir. Þetta er eitt þeirra.

En það er ekki allt tapað.

Stundum má ná gögnum út úr PDF skjölum með því notast við OCR (Optical character recognition). Fullt af vefþjónustum bjóða upp á slíkt, þó yfirleitt aðeins fyrir smá skjöl. Fyrir lengri skjöl og flóknari eru þó til ágætis forrit. Hér er listi sem ber saman OCR forrit og lausnir.

Ég tók þetta gagnslausa PDF skjal og renndi því í gegnum Online OCR þjónustuna. Útkoman var ágæt. Að mestu vegna þess að textinn er á ensku (laus við íslenska stafi) og frekar einfaldur. Einhverjar breytingar þurfti ég að gera (g var t.d. oft lesið sem a). Svo setti ég textann á gist.github.com hér. Smelltu á tengilinn og prófaðu svo að smella á einhvern tengil í listanum.

Magnað, ekki satt?

Listinn sjálfur er ágætur, en það má auðveldlega bæta hann til muna. Það bíður betri tíma.

En nú geturðu að minnsta kosti skoðað tenglana sem Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Íslandi vildi deila með þér.

 

Umferðin við Landspítalann

[style-my-gallery options=’animation: “fade”, controlsContainer: “.flex-container”, controlNav: false’]

 

Landspítalinn er einn stærsti vinnustaður landsins. Fjöldi starfsmanna í upphafi árs 2011 var 4.590. Slíkur fjöldi kallar á allskonar umferðarmannvirki. Eins og sjá má á loftmyndunum hér að ofan (sem allar eru fengnar frá Borgarvefsjá) hefur bílastæðum við spítalann fjölgað verulega. Árið 1984 eru skilgreind stæði fyrir framan aðalinngang og við kvennadeild en 1990 er búið að útbúa stæði á svæðinu milli Hringbrautar og geðdeildarhúsanna. Árið 2008, þegar Hringbraut var flutt, var svo stæðum bætt við milli Gömlu-Hringbrautar og kvennadeildar.

Í samgöngustefnu spítalans frá 2011 er tiltekið að bílastæði við spítalann séu 1.140 og í drögum að deiliskipulagi fyrir nýjan Landspítala er gert ráð fyrir 1.600 stæðum í fyrsta áfanga (þar af 1.260 ofanjarðar) og 2.000 alls þegar byggingu verður lokið (þar af 500 ofanjarðar).

En hvenær er mesta umferðarálagið við Landspítalann?

Á heimasíðu spítalans eru uppfærðar staðtölur á 15 mínútna fresti um nokkrar lykiltölur. Ein þeirra er hversu margir eru við vinnu:

 

Með því að safna þessum tölum saman með reglulegu millibili má átta sig á því hvenær umferðarálagið við spítalann er sem mest [1. Ég safna sömu tölum til notkunar í twitter þjarkinn @landspitali, sem tvítar þessum tölum á klukkustundar fresti. Þú getur skoðað aðra þjarka sem ég rek hér.] Hér má sjá graf fyrir seinustu tvo sólarhringa.

Á hádegi á sunnudegi um hásumar voru um 400 starfsmenn við vinnu og fer fækkandi fram til 7 á mánudagsmorgni. Þá fjölgar þeim gríðarlega hratt fram til 9 og fjöldinn nær loks hámarki um hádegi þegar rúmlega 1.500 manns eru við vinnu. Klukkan 16 fer þeim svo að fækka og kl. 17 eru um 500 manns við vinnu.

Af þessu má sjá að álagið á gatnakerfið í kringum spítalann er langmest milli 7 og 8 árla morguns og svo milli 16 og 17 síðdegis.

Hinir kapítalísku Ólympíuleikar

Ólympíuleikarnir eru merkilegt fyrirbæri. Íþróttafólk frá yfir 200 löndum kemur saman. Það eru ekki margir viðburðir sem draga til sín fulltrúa frá eins mörgum þjóðlöndum. Umstangið í kringum leikana hefur aukist í hvert sinn og þeir Ólympíuleikar sem við sjáum í dag eiga fátt sameiginlegt (eðlilega) með leikunum á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Með hverjum leikum eykst markaðssetningin, brjálsemin og sölumennskan í kringum þá. Leikarnir sem nú standa fyrir dyrum í London eru þar engin undantekning. Sólveig Anna Jónsdóttir fjallar aðeins um það hér. Ég ætla hinsvegar að benda ykkur á hvernig gagnablaðamennska getur flett ofan af því sem sumir vilja halda leyndu.

(more…)

Alþingisvefurinn bættur

Það er eins algild skoðun og getur verið að vefur Alþingis þarfnist stórkostlegra endurbóta. Hlutar vefsins eru, að mér sýnist, keyrðir á perl skriftum frá 1995 og framsetning efnis (sem og aðgengi að því) er fyrir neðan allar hellur.

Eitt sem truflar mig er útlit á ræðum og lagasafni. Engar spássíur eru í texta, sem gerir hann ill-læsilegan. Letur er í smærra lagi og fjöldi neðanmálsgreina gerir línubil ójafnt.

(more…)